Heiðin mín....Hellisheiði syðri

 

Það hvín í húsinu og nálægum trjám er vindurinn þýtur meðal okkar, hrollkaldur og nístandi.

Þó er fallegt að líta út um gluggann, Hellisheiðin er björt og bleik í gullinbleikri, lágsettri sólarskímunni. Einstaka svartar klettanibbur kljúfa sig gegn um snjóhuluna hem hylur heiðina og glansandi vegurinn hlykkjast ofar og ofar en gefur ekki upp hversu auðekinn eða erfiður hann verður að kvöldi dags.

Þegar upp er komið breiðir þessi bleik-bláa auðn sig fyrir fótum manns, og fjöllin í fjarska minna á eitthvað mjúkt, eins og dúnsæng, uppbreidda..... en kaldir eru þeir tindar og ekki nema fyrir augun að gleðjast yfir tign þeirra.

Hún er fögur heiðin í svona birtu, köld og fögur.

Farartálmi, það getur hún verið svo manni stendur stuggur af henni þegar veðrið er í ham og gjörningaþokan leggur sig þykkt yfir Kambana, svo ekkert sést, nema rétt fyrstu 3 - 5 metrarnir fram fyrir bílinn.

Þessi þoka á sér stundum upptök í Ölfusinu. Þá kemur hún frá allmörgum jarðhitasvæðum, móðan sú er seytlar upp á yfirborðið og þéttist og leggur svo leið sína upp Kambana og inn í Hveradalinn. Það er falleg sjón ofanfrá allt þar til maður ekur inn í bakkann, svo þykkan að best er að einbeita sér af fullum krafti, svo maður eigi nú afturkvæmt útúr honum heill á húfi.

Það er með heiðar og fjöll eins og hafið, þau geta gagntekið mann með yfirnáttúrulegri fegurð aðra stundina og hrellt mann með illyrmislegu útliti hina. Náttúran er undursamleg, og þeir sem henni unna vilja hag hennar sem bestan.

Við viljum að börn okkar og afkomendur eigi þess kost að njóta hennar eins og við, væntanlegra á betri vegum betri skipum og faratækjum..... en það er nú önnur og lengri saga....ætla ekki útí þá sálma núna.

Var bara hugsað til hennar sem fyrir augsýn minni er nú er ég sit við hana tölvu mína gömlu og læt hana meðtaka hugsanirnar í gegn um fingur og takka.....


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Sæl Linda. Takk fyrir fallega kveðju mín megin. Ég velti nafninu þínu fram og til baka á milli heilahvelanna á mér þar til ég skildi hver þú ert. Eða öllu heldur hver þú varst fyrir mér einu sinni. Takk fyrir það

En í þessari færslu gefurðu orðinu ''gluggaveður'' nýja merkingu. Ég sé þetta allt saman fyrir mér.

Jóna Á. Gísladóttir, 28.12.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband