4.2.2008 | 18:17
Blessuð veri bölvuð Heiðin......
Ég ók í bæinn í morgun og kom til baka fyrir rúmum klukkutíma síðan og þá var hvasst en fagurt um að litast þarna uppi. Kvöldroðinn litaði vesturhimininn og dökkfjólublá ský með appelsínubleiku kögri hrönnuðust upp í suðri. Svo fylgdist ég með hér út um gluggann minn hvernig smám saman for að snjóa og nú sé ég ekki lengur heiðina og vorkenni þeim sem um hana fara núna. Það er eiturhvasst, dimmt og blint, ekki mitt uppáhalds veður.
Þegar ég ek Hellisheiðina líður mér oft sem ég sé í fögrum draumi. Litirnir og landslagið heillar mig og ég fæ aldrei nóg af henni þegar hún og veðurguðirnir eru í góðu skapi. En þegar skýin hrannast upp og móðumyrkur éla og þoku birgja sýn og vindahamurinn skekur bílinn, þá skelfist ég og vil helst ekki fara þarna upp.
Fyrir þremur árum sótti ég vinnu til Reykjavíkur, vann langan vinnudag og ók þar af leiðandi allan veturinn í myrkri yfir heiðina.
Einn morguninn gerir hörkuél og skafrenning og var ég helst á því að hringja og segjast ekki koma til vinnu, en afréð samt að drífa mig. Það væri alltaf mokað og ég myndi geta þetta eins og allir hinir. Svo hélt ég af stað, ók og böðlaðist gegn um þæfinginn rýnandi út um rúðuna á næstu stiku og svo þarnæstu og koll af kolli. Gekk með ferðin hægt og ekki voru margir á ferð. Nú skömmu eftir að halla fer undan fæti (bílnum), fór bíllinn að halla aðeins of mikið undir flatt og uppgötvaði ég að ég var komin hálf útaf veginum, en ég sá ekki glóru. Varð mér til happs að mokstursmennirnir fræknu átti leið þarna um og kipptu mér aftur upp á veginn.
Þarna gafst mér tækifæri að snúa við og halda heim, en ég ákvað að halda áfram. Þegar niður af Sandskeiði kom var ekki lengur eins dimmt en hálkan þeim mun meiri. Ákvað ég að gíra mig niður er ég var að koma að brúnni yfir Hólmsá en hef ekki verið búin að hægja nóg og gerði þetta ekki nógu hægt, og bíllinn tók af mér völdin. Hann snarsnérist og ég hugsaði með mér að ekki myndi gott að lenda í ánni. Ég reyndi að muna hvernig Ómar Ragnarsson sagðist einhvern tíman að ætti að fara að við svona aðstæður og sneri stýrinu í sömu átt og bíllinn rann. Það varð mér til happs að hraðinn var lítill og bíllinn staðnæmdist á brúarhandriðinu. Ég sat í sjokki smá stund, fór svo út og tékkaði á bílnum og sá að hann þyrfti að komast á verkstæði, en hann var ökuhæfur. Fór ég með hann beina leið á verkstæði.
Ég slapp með skrekkinn, eins og sagt er, en þessi skrekkur er verri en nokkurt fót- eða handleggsbrot hefði getað orðið. Því hann situr enn í mér og hrellir mig alltaf er eitthvað er að færð, og hreinlega stífna ég upp og pumpan fer í maraþon.
Svo kæru lesendur og bloggvinir, ef þið eruð að aka niður Kambana og sjáið fólksbíl á 30 km. hraða úti í kanti á leið niður..... þá eru talsverðar líkur að ég sé þar á ferð. Ekki flauta á mig.... hugsið hlýlega til mín svo ég komist niður umvafin hlýjunni frá ykkur, sem hugaðri eruð:)
Athugasemdir
Heiðin er flott á góðum degi en getur sýnt klærnar á slæmum
Ólafur fannberg, 5.2.2008 kl. 08:00
Úff! eins gott að þarna fór vel.
Steingerður Steinarsdóttir, 5.2.2008 kl. 10:33
Guðni Már Henningsson, 9.2.2008 kl. 01:36
Heil og sæl Linda min, var ad lesa bloggid á undan þessu og rakst á þessa bon þina,
og her er netfangid mitt: idahmalone@comcast.net. þad er mjög gaman ad fylgjast med ykkur mædgum, serstaklega ad sjá myndirnar. Mamma þin gaf mer svo sæta mynd af nöfnu minni frá fermingunni, hlakka til ad heyra frá ykkur.
Kvedjur frá Bremerton, Ida
Ida Malone (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 23:19
hellisheiðin getur verið svo ótrúlega falleg. keyrði þarna í fyrra þegar ég var í heimsókn á íslandi. upplifði norðurljós, stoppaði bílinn og naut fegurðarinnar.hef líka keyrt þarna oft í brjáluðu veðri púff
Bless til þín á mánudagsmorgni
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 11.2.2008 kl. 08:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.