Vestfirðir, hver verndar þá?

Flugæfingar við Látrabjarg 081

Ég er að vestan.  Frá Vestfjörðum.

Faðir minn er frá Arnarfirði og móðir frá Dýrafirði.  Ég er stolt af uppruna mínum og þykir afar vænt um vestfirðina.

Sem barn var ég stundum vikum saman hjá móðurfjölskyldu og eða vinum á Þingeyri, Tálknafirði og Patreksfirði. 

Sumarið sem ég fermdist vann ég í frystihúsinu á Þingeyri og kynntist unglingunum í plássinu. Fórum við m.a. í útilegu inn í botn Dýrafjarðar, og var það mikið og skrautlegt ævintýri fyrir mig, óharðnaðan unglinginn.  

Gleymi ég aldrei hve fallegur fjörðurinn var á morgnana þegar stilla var og fjöllin spegluðust í haffletinum fuglasöngurinn fyllti loftið.  Þá var ekki leiðinlegt að ganga til vinnu.

Vinkona mín, Soffía Gústafsdóttir starfar sem ferðamálafulltrúi á sunnanverðum Vestfjörðum og sótti ég hana heim s.l. sumar. Fór hún með mig hossandi og gnístandi tönnum af hræðslu, yfir fjallgarða og fjallvegi svo ég mætti sjá helstu undrin þarna; Rauðasand og Látrabjarg. Vegurinn var svo slæmur að ég óttaðist ekki aðeins um líf mitt, heldur að bíllinn hristist í sundur á þvottabrettunum, sem boðið er uppá þarna vestra.  

 En þetta var hristingsins virði, þvílík fegurð! 

En skuggi fellur á gleði mína þegar ég hugsa til þess að yfirvöld vesturbyggðar róa að því öllum árum að fá olíuhreinsistöð á Vestfirðina! 

Í dag skrifar Helga Vala Helgadóttir í 24stundir um þennan gjörning. Hún vill minna fólk á að þetta sé ekkert grín. Menn séu í alvöru að stefna að þessu eftir að hafa gefist upp að gera út á ferðamannaiðnaðinn og annað það, sem gæti orðið Vestfjörðunum lyftistöng á þessum síðustu og verstu tímum.

Er ég henni algerlega sammála og finnst óskiljanlegt að fólk sem býr fyrir vestan skuli geta sætt sig við svona bollalengingar.  Allt tal um hreinleika Vestfjarða er  fyrir bí og menn skella skollaeyrum við þvílíkri hættu við stefnum lífríkinu þarna með slíkri stöð og öllum þeim olíuflutningum, sem henni myndi fylgja. Hvað segja æðarbændur við þessu? Og sjómenn? 

Vinir Vestfjarða, látið í ykkur heyra, við getum ekki setið þögul og horft uppá þetta gerast.

Stjórnvöld verða að gera eitthvað raunhæft í málum vestfjarða, og eru endurbætur á vegakerfinu mál, sem ætti ekki endalaust að bíða. Betri vegir verða til þess að mun fleiri sækja Vestfirði heim, ég mun ábyggilega verða ein af þeim. Og ekki segja að eina leiðin til að fá betri vegi sé að fá olíuhreinsistöð!!!   

Tíkin Nóta á Rauðasandi 040

 Lundi við Látrabjargi 072


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Æi, bollaleggingar urðu að bollaLENGINGUM, hahahahaha!

Afsakið átján sinnum

Linda Samsonar Gísladóttir, 15.2.2008 kl. 19:35

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Vestfirðirnir eru algjör náttúruperla. Ég er ættuð að vestan eins og þú, en hef aldrei búið þar. Maðurinn minn er frá Flateyri svo tengingin vestur er sterk. Mér er ekki sama eins og þér hvað verður um Vestfirðina. Í móðurætt er ég einnig frá Dýrafirði og gaman væri að rekja ættir okkar saman. Sérstaklega þar sem Gísla nafnið er ríkjandi í móðurættinni minni. Móðurafi minn var frá Dýrafirði. Ég var að reyna að fletta þér upp í Íslendingabók að gamni en hún vill ekki þekkjast nafnið þitt. Það koma einungis tvær nöfnur þínar upp, önnur fædd 1980 og hin 1966 sem passar ekki heldur. Afi minn hét Bjarni R. Jónsson og var úr Keldudalnum, Arnarnúpi að ég held. Bróðir hans hét Gísli. Gaman væri að skoða þetta. Áfram Vestfirðingar!

Sigurlaug B. Gröndal, 15.2.2008 kl. 21:28

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

það er svo fallegt á vestfjörðum, ég er að fara þangað um páskana. það væri sorglegt að skemma þessa perlu, fyrir skjótan gróða !

hafðu fallega helgi kæra linda

kveðja frá lejre og Bless í bili

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 15.2.2008 kl. 23:52

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Það bara má ekki gerast að reist verði olíuhreinsunarstöð þarna. Allir hugsandi Íslendingar verða að leggjast á eitt og koma í veg fyrir það.

Steingerður Steinarsdóttir, 16.2.2008 kl. 12:45

5 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Takk fyrir góða undirtektir.

Og kveðjur

Steina, ég finn hlýjuna streyma frá þér, takk fyrir.

Sigurlaug. Þú finnur mig ekki vegna þess að ég er skráð Linda Samsonar í Þjóðskránni, því ég fæddist í USA og fékk afanafnið mitt í arf. Seinna þegar ég ætlaði að skrá föður minn sem föður minn..... þá kom í ljós að skráning í kirkjubók í Hafnarfirði hafði ekki reynst nóg, eða týnst. Og faðir minn, sem var nýlátinn, þegar ég uppgötvaði er enn ekki skráður sem slíkur og verður því miður ekki héðan í frá.

Tékkaðu nú aftur, ég er f. 210956

Linda Samsonar Gísladóttir, 16.2.2008 kl. 16:06

6 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Ekki hrifinn af olíuhreinsunarstöð, hélt að Vestfirðir fengju frið, en eitthvað verður fólkið að hafa til að framfleyta sér.

Búið er að stela lífsbjörginni og gefa hana örfáum fjölskildum, en ekkert hefur komið í staðinn annað en innantóm loforð og skýjaborgir.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 16.2.2008 kl. 20:16

7 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Satt segirðu, en heldurðu ekki að betra væri ef stjórnvöld skoðuðu betur hvað þau eru að gera með kvótann? Ég hef aldrei skilið hvers vegna hann er ekki bundin staðsetningu, ekki skipum eða fyrirtækjum.   En ég hef náttúrulega ekkert vit á þessu, og er ábyggilega ekki ein um það.

Linda Samsonar Gísladóttir, 16.2.2008 kl. 20:52

8 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Heil og sæl Linda. Takk fyrir upplýsingarnar. Við erum langt í frá að vera náskyldar en ættir ná saman í Dýrafirði hjá forfeðrum móðurafa míns frá því um miðja 18. öldina og erum við tengdar í 7. og 8. ættlið. Ansi langt. Ég get sent þér þetta í tölvupósti. 

Sigurlaug B. Gröndal, 17.2.2008 kl. 13:48

9 Smámynd: Kolgrima

Það er ótrúlegt að einhverjum skuli hafa látið sér detta þetta í hug. Vestfirðingar sjálfir verða að bregðast við, það heyrist harla lítið úr þeirra herbúðum - nema það hafi bara farið framhjá mér.

Kolgrima, 18.2.2008 kl. 14:43

10 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Já skrítið er það, þó er ég viss um að þeir hafa skoðun á þessu.  Vonandi eru þeir ekki hræddir við að segja hana.

Linda Samsonar Gísladóttir, 20.2.2008 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband