24.2.2008 | 18:52
Enn og aftur um vestfirska olíuhreinsistöð
Ég get ekki orða bundist eftir síðustu fréttir (fréttir RUV á föstudag, að mig minnir) um hve orkufrek og mengandi "fyrirhuguð" olíuvinnslustöð á vestfjörðum verður ef af henni verður. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta algjört feigðarflan og á erfiðara en erfitt með að setja mig inn í hugsunarhátt þeirra sem þetta ferlíki vilja.
Svona stöð mun að öllum líkindum þurfa um.þ.b. aðra Kárahnjúkavirkjun svo hægt sé að starfrækja hana, nú eða brenna olíu að öðrum kosti! Gáfulegt! Og mun svo ein og sér spúa nálægt 1.000 tonnum af koldíoxíð upp í andrúmsloftið, og þá á eftir að telja til mengunina af flutningaskipunum, sem munu sigla þangað og þaðan.
Ég geri mér grein fyrir að við mennirnir erum ekki öll eins innréttuð, en stundum verð ég alveg klumsa þegar ég átta mig á hve mikið skilur sum okkar að.
En svona er þetta víst og röflið í mér mun vafalaust litlu, ef þá nokkru breyta.
Athugasemdir
Þú átt rétt á þinni skoðun eins og allir aðrir og að flokka þína skoðun sem röfl er ósanngjarnt Linda,
Olíuvinnslustöð á vestfjörðum er ekkert gleðiefni frekar en Álver og Kárahnjúkavirkjun var, en ef meirihlutinn telur þetta skásta kostinn í stöðunni, og samþykkir þetta, er ekkert við því að gera.
Viljir þú gera eitthvað í málinu er um að gera að finna fleiri sömu skoðunar, og reina að setja saman baráttu hóp til að koma með mótrök gegn framkvæmdinni, áður en framkvæmdin verður löglega samþykkt.
Eftir það er ekkert hægt að gera.
Svo er það spurning, hvað á að vera fólkinu til framfærslu annað en þetta.
Allt tal um önnur atvinnutækifæri hefur reynst vera gaspur um skýjaborgir væntinganna, og enginn venjulegur maður hefur getað greitt af lánum, eða brauðfætt sig með slíku.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 24.2.2008 kl. 19:55
já ósköp sorglegt, ég skil alveg að það vanti fleyri atvinnur á vestfirði, en finnst þetta leið til mikilla peninga strax, án þess að hugsa um hvaða spjöll þetta gerir. vonandi kemur einhver með einhverja bráð snjalla hugmynd um nýja möguleika og ríkið leggur svo peninga í að setja á stofn þau fyrirtæki sem eru möguleg. veit að ylfa sem er frænka mín og bloggvinkona á bolungavík hefur haft hugmyndir um að setja í gang sultugerð, hún hefur oft verið kosin sultudrottning vestfjarða. hún hefur sótt um styrk til að framkvæma þessa frábæru hugmynd, en ekki fengið hljóm. ég er viss um að það er fullt af svona kreatívu fólki fyrir vestan sem gætu gert kraftaverk, en þau hefðu fjármagn.. þannig að
Bless í bili kæra linda
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 25.2.2008 kl. 17:24
Ég er alveg sammála þér Linda. Manni blöskraði. Ég skil ekki hugsanaganginn í þessu. Við erum að gefa okkur út fyrir að vera vistvæn þjóð, básúnum út fagnaðarerindið í þeim efnum á ráðstefnum víða um heim og þykjumst betri en flestir aðrir en erum svo hrikalega ósamkvæm sjálfum okkur þegar snýr að öllu sem lýtur að áformum um stóriðju. Af hverju má ekki styðja við atvinnuþróun hjá heimamönnum? Það er fullt af fólki þar með góðar hugmyndir og margt sem gæti aukið atvinnu á svæðinu en vantar fjármagn. Þetta er alltof sérstæð og falleg náttúra fyrir það fyrsta til að eyðileggja. Olíuiðnaðurinn er mjög mengandi og orkufrekur, er þörf og viljum við aðra Kárahnjúkavirkjun? Við værum komin langt fyrir öll mörk ef svo yrði. Hér verður fólk að spyrna við fótunum allir sem einn! Þarft málefni hjá þér Linda! Styð þig eindregið í þessu.
Sigurlaug B. Gröndal, 28.2.2008 kl. 20:48
Ég er hjartanlega sammála. Ég veit að bæta þarf lífskjör fólks úti á landi og skaffa því atvinnu en hvers vegna er eingöngu einblínt á stóriðju og mengandi iðnað? Það er margt annað til. Vissulega þarfnast það meiri undirbúnings og oft fjármagns en við Íslendingar erum ekki á vonarvöl.
Steingerður Steinarsdóttir, 29.2.2008 kl. 13:05
Ég fór hrapallega töluvillt í þessari upptalingu minni hér að ofan..... mengunartonnin sem hugsanlega munu dreifast frá þessari stöð gætu orðið 1.000.000, en ekki 1000 eins og óskhyggjan mín skrifaði...... þessi í undirmeðvitundinni, sem vill að allt sé gott og mennirnir líka
Linda Samsonar Gísladóttir, 3.3.2008 kl. 14:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.