6.4.2008 | 21:55
Bjart er yfir bænum mínum
Ég meira að segja settist út á pall í dag og sólaði mig ......... í 30 sekúndur!
Kaldi vindurinn að norðan, snýr nefnilega uppásig við hornið á húsinu mínu, sérstaklega til að heilsa uppá mig. Ef hann bara vissi hve kaldur hann er þegar hann strýkur mér um vanga og kinn.
Stóri skaflinn á lóðarmörkunum vestan megin við húsið mitt er þrjóskari en flestir skaflar sem ég hef hitt á byggðu bóli, en hann hefur þó aðeins minnkað og er ekki lengur hreinn og fagur, heldur skítugur og lítt aðlaðandi.
Svo eru nokkrir minni skaflar hér og þar um lóðina og bíð ég spennt eftir að þeir fari svo haustlaukarnir mínir og Maíblómið mitt fagra og fíngerða geti farið að gægjast upp. Ég er líka búin að setja Begóníur niður í potta hér innanhúss og hlýnar innvortis við tilhugsunina um fegurð þeirra í sumar.
Bærinn minn er smám saman að vakna og víða eru vonbjartir Krókusar þegar farnir að líta í kring um sig eftir vorinu.
Íbúarnir eru margir hverjir búnir að finna gönguskóna sína og stafi og stika léttir í spori um þorpið í skærri birtunni. Sólgleraugun koma sér vel í svona skellibirtu.
Veturinn reynir að halda velli með fimbulfrosti um nætur og í dagskugganum, sem sólin nær enn ekki að varpa birtu því enn er lágt á henni risið eftir erfiðan vetur.
En hún veit að við bíðum eftir henni og brosum til hennar þegar hún svífur eftir suðurhimni í átt til kvölds og ljómar öll ský með bleikri rönd er á vegi hennar verða.
Já, mikið hlakka ég til vorsins.
Athugasemdir
Ó, já, nú tel ég dagana þar til vorið lætur sjá sig. Þessir "þrjóskuskaflar" eru ferlegir. Það eru nokkrir hér einnig sem vilja ekki alveg yfirgefa plássið sitt. Litlu tunnarnir sem við settum niður í fyrra koma illa undan vetri. Dvergfururnar eru illa farnar svo og einirinn. Vonandi ná þeir sér. Heill sé þér , yndislega vor!!!
Sigurlaug B. Gröndal, 6.4.2008 kl. 23:18
Það er enn tími til að bjarga því sem bjargað verður, en þá á ég við runnana. Versta veðrið fyri þá er enn eftir, þurrir, kaldir vorvindar, sem þurrka upp brum og snemmkomin blöð.
Sé settur strigi eða eitthvað í kring um þá getur það alveg gert gæfumuninn. Og ekki taka hlífina burt fyrr en um miðja mai, og jafnvel seinna.
Regnið í dag bræddi heilmikið af snjó í dag:) Verst að vatnið nær ekki af renna burt vegna frostsins í jarðveginum, en það kemur að því senn.
Linda Samsonar Gísladóttir, 7.4.2008 kl. 20:09
Gaman aað sjá fuglabandið, takk. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sagði Halldór Laxness og það er alveg víst! knús á þig Linda mín
Eva Benjamínsdóttir, 9.4.2008 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.