31.5.2008 | 17:15
Eftirskjálftar færri og minni og Mjása litla komin heim:)
Þetta hafa ekki verið þægilegir dagar að undanförnu. Þó gleðst ég yfir því að engin stórslys hafa orðið á fólki. Blessuð dýrin hafa ekki öll sloppið jafn vel. Ég frétti að á bæ einum varð að aflífa fé sem varð undir hrynjandi húsi og sömuleiðis hafa smádýr eins og fuglar og fiskar dáið.
Ég veit að nokkrir hundar og kettir hafa horfið og vona að þau skili sér.
Og kálfur ofanaf Friðarstöðum hljóp niður í bæ og dúkkaði upp í einum garðinum greyið litla.
Hjá mér lifðu fuglar, fiskur og kettir af, mér til mikillar gleði.
Fuglarnir eyddu fimmtudeginum og fyrri hluta föstudagsins undir eldhúsborðinu í búrunum sínum.
Fiskó steinsuga var settur með búri og öllu á mitt ganggólfið og er þar ennþá.
Og sú kisa(Títa) sem ekki týndist hefur ýmist verið í gjörgæslu eða haft okkur Ídu í gjörgæslu, hún fylgir okkur eins og skugginn.
Mikið er ég fegin deginum í dag..... í gær var ég sem hengd uppá þráð eftir svefnlitla og erfiða nótt.
Ída dóttir mín svaf uppí hjá mér og henni tókst að sofa þó ég gæti það ekki. Í hvert sinn sem höfgi sveif á mig, kom nýr skjálfti og kippti í taugarnar og ég glaðvaknaði á ný.
Svo í gær fór ég að taka til þetta mesta, en það mun taka mig langan tíma að klára þrifin og koma reglu á hlutina aftur, ekki síst vegna þess að ég þori ekki enn að setja þunga hluti aftur upp í hillur, hvað þá uppá skápa. Sem sagt ýmsir glerhlutir sem ekki brotnuðu, standa á gólfinu hér og þar og það sama má segja um nokkrar myndir, sem duttu niður.
Vil ég benda á að kennaratyggjóið sem ég setti undir skrautkönnur á smáhillu í eldhúsinu, hélt þeim á sínum stað. Ég mæli með kennaratyggjói til þessa brúks og mun kaupa glás af því á næstunni til að festa hluti með.
Húsið mitt er allt meira og minna sprungið sérstaklega á samskeytum, þar sem málningin hefur rifnað frá.
En verst af öllu þótti mér að finna ekki kattarstýrið hana Mjásu, þrátt fyrir langar göngur með Ídu dóttur minni hrópandi og kallandi margoft síðustu daga og kvöld.
Og skjálftarnir og og fjarvera kisu litlu í rigningu og roki gerðu gærkvöldið ömurlegt og verð ég að viðurkenna að á þeirri stundu var ég farin að hugsa um að flytja aftur í bæinn. Tilhugsunin um mögulegan skjálfta í sömu stærð eða stærri á næstu árum var (er) mér um megn og fann ég hve beygð ég var eftir þessa reynslu.
En svo náttuðum við Ída okkur, og hafði ég hana sem fyrr hjá mér og hinn köttinn, Títu, sem við höfum passað mjög vel uppá þennan tíma. Og mér tókst að endingu að sofna um þrjú leitið í nótt.
Tæpum klukkutíma seinna vaknaði ég upp við skerandi mjálm fyrir utan gluggann og stökk hæð mína í loft og sá að Mjásan okkar var komin. Þaut ég út að ná í hana blauta og skelfda en hún fór að mala um leið og ég umvafði hana og knúsaði. Ég þurrkaði hana og gaf henni mat. Síðan fékk hún knús og við fórum að sofa og nú gekk betur að gleyma sér þegar allir fjölskyldumeðlimirnir voru heilir á húfi. Ég vaknaði ekki einu sinni við stóra eftirskjálftann um 5 leitið í morgun, heldur svaf næstum til hádegis. Ætla að taka því rólega í dag, aðeins taka meira til en nú er ég að fara að baka formköku.
Bið bara að heilsa öllum sem hugsuðu til okkar hér fyrir austan:)
Athugasemdir
Mikið ósköp er ad sjá, allt á rú og stú, gott ad kisa kom i leitina. Hvernig hefur hún nafna min það ?? gefdu henni stort knús frá mer. Kvedja. Ida
Ida frænka (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 18:05
Linda mín, manni er nú bara létt að vita af öllum heimilismeðlimum heilum á húfi eftir ósköpin sem dunið hafa á ykkur. Þú reynir bara að hvíla þig voða vel næstu daga, það liggur ekkert á að taka til, þetta fer ekkert. Gott að eiga nóg af kennaratyggjói. Góða nótt til ykkar allra kv. eva
Eva Benjamínsdóttir, 2.6.2008 kl. 00:03
Mikið er gott Linda mín að Mjási sé fundinn. Það er agalegt að sjá hjá þér. Það er mikil vinna sem liggur fyrir. Er húsið, þrátt fyrir sprungur í lagi? Ég vona það. Ég held eins og þú lýsir, Linda að eftirmálar skjálftans verða miklir tilfinningalega séð hjá fólki. Ótti á eftir að blunda lengi í fólki eftir á. Sniðugt þetta með kennaratyggjóið. Góð hugmynd. Reyndu að hvíla þig og farðu vel með þig, ef þú hefur tök á því. Knús og kossar frá mér.
Sigurlaug B. Gröndal, 2.6.2008 kl. 07:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.