11.6.2008 | 17:30
Oft er í holti heyrandi nær.....
....... Hugsaðu um hvað þú segir við barnið. Stundum er best að segja sannleikann á einfaldan máta.
Enn eru mér jarðskjálftarnir í fersku minni og margt borið á góma varðandi þá á vinnustað mínum.
Eitt er það þó, sem við heyrðum, sem setti að okkur ugg. Því eitt af yngri börnum leikskólans sagði að TRÖLLIN hefðu komið og látið húsin skjálfa.
Tröll hafa alltaf verið ógnvekjandi, en nú keyrði um þverbak. Það að barn skuli segja þetta og trúa því er hræðilegt. Jarðskjálftinn er nógu slæmur samt, þó ekki bætist TRÖLL við ógnina.
Annað sem ég heyrði, tengist ekki skjálftanum, heldur fjölmiðlum.
Það var um barn, sem var svo hrætt og grét mikið. Þegar það var spurt hví það væri hrætt, þá sagði það að það væri svo hrætt við að VERÐBÓLGUDRAUGURINN myndi koma og éta húsið heima. Barnið hafði heyrt í sjónvarpinu að verðbólgudraugurinn æti húseignir upp.
Börn túlka það sem þau heyra á sinn hátt og stundum er erfitt að koma í veg fyrir misskilning. En gott er að hafa hugann við hvað maður segir í áheyrn þeirra.
Munið þið ekki eftir að hafa túlkað til að mynda texta við lög eftir eigin höfði er þið voruð börn?
Athugasemdir
Oft er belgur betri hjá en barn, segir gamalt mátæki.
Svava frá Strandbergi , 11.6.2008 kl. 23:51
Æ, mér finnst alltaf svo yndislega sætt þegar þau túlka hlutina svona bókstaflega. Lítill systursonur minn missti einu sinni símtólið þegar hann var að tala við mömmu sína, greip það upp og spurði andstuttur: Meiddirðu þig? Mér finnst þetta æði.
Steingerður Steinarsdóttir, 13.6.2008 kl. 13:49
Takk fyrir þessi þörfu orð...
Guðni Már Henningsson, 14.6.2008 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.