7.7.2008 | 16:27
Hvernig ætli lyktin sé í Helvíti?
Ég fann stink um helgina, sem gæti alveg verið beint úr neðra.
Ég fór ásamt Stefáni vini mínum að skoða nýju hverina við Reyki, þá Leirgerði, Skjálfta, Reykjamóra og Hriflu .
Á leið þangað uppeftir gengum við göngustíg, sem var "hveralaus" 25. maí s.l. en nú þvera hverir og gufusvæði með augum hann á a.m.k. tveimur stöðum. Auk þess eru hverir umhverfis göngustíginn og mökkinn leggur til himins.
Ekki er hægt að lýsa þeirri ólykt sem leggur að vitum manns þarna. Það mætti halda að þarna sé eldur en ekki vatn á ferðinni, því saman við brennisteinslyktina er daunillur þefur af sviðnum gróðri og jörð. Enginn stinkur sem ég hef fundið áður gæti betur átt við hugmyndir mínar um óþefinn í Víti.
Rétt ofan við stíginn er allstórt tré, sem hefur orðið þessum feiknahita að bráð. Rætur þess hafa soðnað og nú stendur tréð þarna sviðið og og skrælnuð laufin hanga enn á greinunum. Dapurleg sjón.
Hverasvæðið nýja er nokkuð stórt og leirhverirnir stórir og ógnvekjandi. Efst bulla fjórir samvaxnir leirhverir. Þeir hafa hreykt upp talsvert hárri bungu sem er öll sprungin og sést hve krafturinn hefur verið mikill þegar mest gekk á.
Neðar er stór hver með mörgum augum, sem gerir hann stórhættulegan forvitnum ferðalöngum. Hugnaðist mér ekki hve fólk steig nálægt hverunum, því þeir mynda oft holrúm undir jörðinni næst sér og hafa margir í vanþekkingu sinni misst fót ofaní bullsjóðandi hver á þann hátt.
Þrátt fyrir hætturnar sem þarna leynast eru hverirnir heillandi og forvitnilegir og gaman að skoða þá.
Rétt fyrir neðan hverasvæðið rennur Varmá og við hana stendur gistiheimili sem hefði getað fengið óvænta "hitagjöf", en slapp með skrekkinn.
Ég mæli með því að fólk kíki þarna uppeftir en elskurnar mínar, farið afskaplega varlega og ekki of nálægt hverunum, sérstaklega þeim, sem eru á miðju svæðinu, þar bullar hún Leirgerður og leynir á sér undir jörðinni.
Kraumandi, vellandi.......
Sullum Drull, og Drullum sull.....
Athugasemdir
Hæ frænka,
gaman að sjá þessar flottu myndir og gott að ósköpin eru yfirstaðin og þú farin út til að njóta verksummerkja.
Hef verið að skoða fjöllin og ljósið undanfarið.
Hafðu það áfram yndsislegt í sumar. kv. eva
Eva Benjamínsdóttir, 7.7.2008 kl. 20:09
flottar myndir, móðir jörð er líka fögur þegar hún er hættuleg, hún er þó ekki hættulegri okkur en við erum henni.
Kærleikur yfir á mitt landið gamla
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 8.7.2008 kl. 10:34
Fallegar myndir hjá þér og sýna vel hve landið okkar getur verið óútreiknanlegt.
Svava frá Strandbergi , 8.7.2008 kl. 22:47
Sæl kæra Linda mín.
Frábærar myndir og takk fyrir fallegar og góðar kveðjur.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.þ
Karl Tómasson, 9.7.2008 kl. 00:04
Takk öll fyrir "commentin", og Kalli gaman að heyra frá þér:)
Linda Samsonar Gísladóttir, 11.7.2008 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.