21.1.2009 | 21:13
Sem kvika í kraumandi iðu
Það er komið að endalokum þolinmæði minnar.
Ég nenni ekki lengur að horfa uppá menn, sem blindaðir eru af valdi sínu og græðgi, réttlæta sig og gjörðir sínar, eða aðgerðaleysi, fyrir alþjóð. Menn, sem ég í einfeldni minni hélt að hefðu heilbrigða skynsemi til að bera og væru færir um að taka vel ígrundaðar ákvarðanir byggðar á öðru en eigin hvötum.
Vonbrigði er ekki rétta orðið yfir þá kennd sem ég finn fyrir. Depurð er ekki rétta orðið.
Ég er orðin reið, bullsjóðandi reið. En þessi reiði er ekki á yfirborðinu og skolast ekki auðveldlega burt með fallegum orðum eða yfirborðslegum athöfnum þeirra sem "valdið hafa". Hún hefur verið að búa um sig að undanförnu innra með mér og ég finn fyrir henni krauma eins og kviku í vaknandi eldfjalli.
Ég er ekki tilbúin að fyrirgefa og gleyma. Ég vil sjá þá menn er ábyrgð bera á þeim endemum sem yfir okkur ganga, víkja. Ég vil ekki að þeir menn sem sviku út fé og bröskuðu með sjóði landsmanna, geti firrt sig ábyrgð og lifað í allsnægtum sem eftir er. Sleppi þeir svo vel, er það einungis merki til námfúsra sporgöngumanna þeirra, að það sé í lagi að vera siðlaus, svo lengi sem hangið sé á örþunnri línu laganna.
Ég vil núverandi stjórn frá því hún er orðin eins óstjórnleg og hægt er. Og alla þeirra fylgifiska úr fjármálaheiminum líka (og ekki einungis bankastjórana, því innviðir bankanna eru ansi rotnir líka). Rotnuðu eplin verða að fara og fersk skulu inn. Annars verður ekkert hægt að byggja upp að nýju.
Takk fyrir.
Athugasemdir
Gott Linda að þú sért vöknuð af þyrnirósasvefninum!
Réttlát reiði verður að fá útrás, annars missir maður gjörsamlega vitið!
Torfi Kristján Stefánsson, 22.1.2009 kl. 14:21
gömul orka út og ný inn, með nýa möguleika og hugmyndir !
KærleiksLjós frá konu í Lejrekotinu
steinaSteinunn Helga Sigurðardóttir, 24.1.2009 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.