Hreint land, fagurt land?

Nú áðan er ég kom heim á náttfötunum, úr vinnunni (náttfatadagur í leikskólanum;) langaði mig helst að fara út í bjartviðrið og ganga. En það er ekki gott að ganga í náttúruparadísinni hér við Hveragerði núna. Ástæðan er sú að best er að halda sig innan dyra vegna brennisteinsfnyksins frá Hellisheiðarvirkjun sem fyllir vitin er maður bregður sér af bæ.

Þetta er ekki einasta vondur stynkur, heldur er hann heilsuspillandi og óar mig við þeirri hugsun að fái Ólafur Áki Ragnarsson, Bæjarstjóri Ölfus sínu framgengt, þá muni önnur brennisteinsspúandi og umhverfisspillandi  virkjun líta dagsins ljós hér í næsta nágrenni við okkur. Þá verður Bónus að fara að selja gasgrímur hér úti í Sunnumörk! Mér finnst persónulega að Ólafur Áki Ragnarsson sé líkt og maður sem stendur á brík milli tveggja sundlauga og pissar í aðra laugina en fer svo ofaní hina og kærir sig kollóttan þó hlandið mengi alla laugina við hliðina.  Hans bær, Þorlákshöfn er nefnilega svo langt frá Bitru, að hans fólk sleppur við þessa mengun ef af áformum hans verður. (Hann er kannski að jafna mengunarkvótann á milli byggðarlaga, er með fiskifýlu í Þorlákshöfn og finnst í lagi að við hér ofar í landinu fáum smá brennisteinsstynk! Verst er að hann er með þessu móti að efna til framtíðar leiðinda á milli þessara tveggja bæjarfélaga í stað þess að efla samstarf og einingu þeirra í milli. Þykir mér þetta miður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Linda mín, hvaða tepruskapur er þetta, þolið þið ekki smá-lykt. Nákvæmlega þetta sagði ég við son minn sem býr í Þorláksöfn, þegar lykt frá þorskhausaverkssmiðju þar,bar á góma.  Fer þetta ekki eftir vindáttinni?   

Helga Kristjánsdóttir, 28.2.2009 kl. 06:30

2 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Helga mín, þetta á ekkert skylt við tepruskap. Hér erum við vön "venjulegri" hveralykt og þykir hún bara ágæt.

Ég er með vægt asthma og vil ekki þurfa að flytja héðan (sem ég gæti hvort eð er ekki ekki þar sem ég er bundin vistarböndum hér) , því hér hef ég fest rætur og vil hag bæjarins míns sem mestan og vil að börnin sem ég tek þátt í að ala upp, geti búið hér á hættu á að fá öndunarfærasjúkdóma.

Brennisteinslyktin ber ekki aðeins vond lykt, heldur er hún eitruð og þar af leiðandi heilsuspillandi. Í Reykjavík, sem er í miklu meiri fjarlægð frá Hellisheiðinni en Hveragerði, kvartar fólk sáran unda brennisteinsfnyknum þegar áttin er austlæg, og ber hann til höfuðborgarinnar.

Bendi ég þér á að lesa greinarnar hér að neðan.

Kveðja

Linda

-------------------------------------------------------------------

Innlent - mánudagur, 8. september, 2008 - 18:37

Náttúrufræðistofnun: Mosi drepst við Hellisheiðarvirkjun, líklega vegna mengunar

hellisheidarmosi.jpgMengun af brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun hefur drepið mosa á rúmlega tveggja ferkílómetra stóru svæði milli virkjunarinnar og Svínahrauns, að því er fram kom í kvöldfréttum Útvarps.

Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir að endurmeta þurfi mengunarvarnir á svæðinu. Náttúrufræðistofnun gerði bæði Orkuveitunni og Umhverfisstofnun viðvart um málið í dag.

OR hvetur til þess í tilkynningu í kvöld að málið verði rannsakað ofan í kjölinn, “sérstaklega með það fyrir augum að kanna hvort starfsemi Hellisheiðarvirkjunar hafi haft áhrif þarna á. Ekki hefur orðið vart svipaðra gróðurskemmda við Nesjavallavirkjun, sem starfrækt hefur verið í tæpa tvo áratugi á sama jarðhitasvæði.”

“Orkuveita Reykjavíkur tekur umræðu um umhverfismál mjög alvarlega,” segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og hvetur til þess að tilgátur um orsakirnar verði rannsakaðar sem fyrst. “Á Hellisheiðinni og þar í grennd erum við í samstarfi við fjölda aðila um uppgræðslu– þ.á.m. Landgræðsluna, Náttúrufræðistofnun og almannasamtökin Gróður fyrir fólk - og erum að vinna að því að endurheimta gróður. Það er því slæmt að horfa upp á þessir skemmdir á svæðinu,” segir Hjörleifur.

Sjá umfjöllun um skemmdirnar á vef Náttúrufræðistofnunar

-------

Frá Hellisheiði.

Frá Hellisheiði. mbl.is/ÞÖK

//
Innlent | mbl.is | 13.5.2008 | 21:52

NSS leggjast gegn áformum um Bitruvirkjun

Náttúruverndarsamtök Suðurlands, NSS, leggjast alfarið gegn  áformum  um virkjun við Bitru, áður nefnd Ölkelduhálsvirkjun og telja að virkjunin  rýri verulega lífsgæði íbúa í Hveragerði og í næsta nágrenni.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum sem hafa gert athugasemdir við auglýstar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árin 2002 - 2014, en frestur til athugasemda rennur út í dag.

Í tilkynningunni segir að NSS „telja að ekki hafi verið sýnt fram á að HS2 mengun og hávaðamengun af virkjuninni verði með þeim hætti að ásættanlegt sé að stunda slíka starfsemi við þétta byggð. Þó svo að fyrirhugað sé að leita leiða til að hreinsa HS2 úr útblæstri, og að niðurdæling sé áformuð, er óvíst að það muni leysa þann vanda sem skapast getur á framkvæmdatíma ef af virkjuninni verður enda ekki áformað eða mögulegt að hreinsa þann útblástur.

NSS vekja athygli á að HS2 mengun frá Hellisheiðarvirkjun hefur m.a. haft áhrif á loftgæði á höfuðborgarsvæðinu  Einnig er vakin  sérstök athygli á því að íbúar í Hveragerði og forystumenn þess sveitarfélags hafa gert ítrekaðar athugasemdir við áform um virkjun við Ölkelduháls/Bitru og leggjast eindregið gegn henni.

NSS vísa til þess að Hengilssvæðið, Ölkelduháls, dalirnir ofan Hveragerðis og afréttur Ölfuss nýtur vaxandi vinsælda, sem útivistarsvæði íbúa á vestanverðu Suðurlandi og höfuðborgarsvæðisins. Hér er um að ræða dýrmætt útivistarsvæði í nánasta nágrenni við helsta þéttbýli landsins sem er auk þess að hluta til á náttúruminjaskrá. Svæðið er því ekki einungis dýrmætt fyrir Ölfusinga og Hvergerðinga heldur alla landsmenn.

NSS telja að náttúrugæðum verði spillt til frambúðar með fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum við Ölkelduháls og hvetja til varfærni og biðlundar með slíkar framkvæmdir. Bent skal á að svokallað landsskipulag liggur ekki enn fyrir og að alls óvíst sé hvort að virkjanaklasar af því tagi sem áformaðir eru á Hellisheiði, með tilheyrandi orkuflutningskerfi standist slíka skoðun þegar til kemur. Eins má benda á að alls ekki er fyrirséð hvort að losunarheimildir fáist fyrir stóriðjuáformum þeim sem að virkjun við Bitru hefði átt að knýja. Bent skal á að kapp er best með forsjá í þessum málum sem öðrum.

NSS gagnrýna ennfremur þann gjörning að sveitarfélagið Ölfus hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru“ svo vitnað sé í bókun bæjarstjórnar Ölfuss frá 28. apríl 2006.

-------------

Innlent | 24 stundir | 20.2.2008 | 05:30
Kristinn Sigurðsson, eigandi Tímadjásns, segir falla á silfur fyrr en áður.

Kristinn Sigurðsson, eigandi Tímadjásns, segir falla á silfur fyrr en áður. Árvakur/Eggert

Brennisteinn frá Hellisheiði hættulegur?

Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.is


„Brennisteinsvetni í andrúmslofti í nágrenni höfuðborgarinnar er orðið svo mikið að það getur hugsanlega valdið fólki með lungnasjúkdóma óþægindum, og jafnvel haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir heilbrigt fólk til langs tíma litið.“ Þetta segir Sigurður Þór Sigurðarson, lungnalæknir og sérfræðingur í atvinnu- og umhverfissjúkdómum.

Hringur fægður fyrir þremur vikum.

Hringur fægður fyrir þremur vikum.

Frá því Hellisheiðarvirkjun var gangsett haustið 2006 hefur brennisteinsvetni í andrúmslofti í Reykjavík og nágrenni aukist talsvert, en umhverfissvið borgarinnar hóf að mæla magn brennisteinsvetnis fyrr á sama ári.

Að sögn Kristjáns Geirssonar, deildarstjóra hjá Umhverfisstofnun, er magn brennisteinsvetnis langt undir heilsufarsmörkum Aljóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). „En magnið hefur aukist, og það þarf að fylgjast með því,“ segir Kristján.

„Það er alveg klárt að þótt magnið sé undir mörkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar getur mengunin gert fólki með öndunarfærasjúkdóma erfitt fyrir við öndun,“ segir Sigurður Þór.

Hann bendir á að brennisteinsútblástur frá virkjunum valdi stöðugri mengun í langan tíma. „Og það getur hugsanlega haft uppsöfnuð áhrif á þá sem lifa í þessu umhverfi. Það getur verið að það taki allt að 10 til 20 ár að koma í ljós hvort mengunin hafi t.d. áhrif á þroska barna. En um það segja viðmiðunarmörkin ekkert, enda erfitt að spá fyrir um slíkt og þetta er ekki að fullu rannsakað.“

Merki um aukið magn brennisvetnis í andrúmsloftinu á höfuðborgarsvæðinu eru þegar farin að sjást mjög á silfurbúnaði.

„Þegar ég finn á brennisteinslyktinni að það er austanátt, veit ég að það þarf að hreinsa silfrið sólarhring seinna,“ segir Fríða Helgadóttir, starfsmaður úra- og skartgripaverslunarinnar Tímadjásns í Grímsbæ. Verslunin er í Fossvogsdal, en íbúar þar segjast oft finna brennisteinslykt í dalnum, sem berist með austanátt og hangi svo í loftinu í logni. „Það var ekki þannig áður en Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun.“

Aðspurð segir Fríða að hreinsuninni fylgi ekki mikill kostnaður. „En hún tekur þó töluverðan tíma, og kallar á aukna vinnu.“

Linda Samsonar Gísladóttir, 28.2.2009 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband