5.3.2009 | 20:21
Smáfuglar og aðrir fuglar
Í leikskólanum sem ég vinn í höfum við þann sið að henda út brauði og fleiri afgöngum fyrir fuglana. Stórir flokkar fugla fylgjast grannt með hvort eitthvað sé í boði og þeir koma oft á dag.
Við útbjuggum litlar myndir af þeim fuglategundum sem heimsækja okkur og límdum á gluggann, svo börnin gætu fylgst með og gætu greint sundur tegundirnar.
Tíðustu gestirnir eru Starrar, snjótittlingar, þrestir og Hrafnar. Auðnutittlingar og dúfur koma líka. Börnin kunna vel að meta þessar heimsóknir og stundum hafa yngstu börnin jafnvel náð sér í aukabita þarna úti;-) Ég tek fram að þau fá öll að borða í leikskólanum;-)
Í morgun, þegar hópur snjótittlinga var að gæða sér á brauðmolum, varð heldur en ekki fjaðrafok og allir sem einn flugu í óðagoti burt. Þegar að var gáð, var kominn nýr gestur, sem við höfum ekki séð þarna áður; Smyrill. Hann var ósköp smár, en fallegur, og lét sér í léttu rúmi liggja þó við horfðum á hann forvitnum augum. Það var enn rökkur úti, svo við gátum ekki séð hvort hann hafði hremmt einhvern fuglanna, en hann virtist ekki vera að éta neitt. Ég fann mynd á vefnum af Smyrli og verður hún sett á gluggann hjá hinum myndunum.
Eftir að Smyrillinn fór, flugu snjótittlingarnir ítrekað yfir áður en þeir þorðu að setjast aftur og fá sér í gogginn. Greyin litlu. ->Vil ég minna fólk á að gefa blessuðum fuglunum því þeir heyja harða lífsbaráttu og eyða mikilli orku í leit að æti.
Athugasemdir
Það er fátt skemmtilegra en að gefa fuglum. Eitt sinn bjó ég í risíbúð og gaf þeim á þakið. Þegar þeir voru orðnir svangir, litlu fuglarnir gogguðu þeir í gluggann og létu vita að nú væri kominn matmálstími. Þetta voru undurfagrir snjótittlingar. Það er ég viss um að börnin hjá þér skemmta sér vel yfir fuglum Hveragerðis.... Myndin þín er falleg einsog myndirnar þínar eru alltaf...
Guðni Már Henningsson, 7.3.2009 kl. 12:48
Takk Guðni:) Það gleður mig að vita að þú hafir gaman að myndunum mínum.
Ég er meira fyrir fegurðina en ljótleikann.
Kær kveðja,
Linda
Linda Samsonar Gísladóttir, 7.3.2009 kl. 14:18
Takk, takk, takk Linda mín. Færsla sem er EKKI um hálaunabankaræningja eða stjórnmálamannafáviskukeppni og ekkert almennt nöldur!!!
takk, takk, takk. Við hljótum að eiga fleiri.
Leonard biður mig að láta vita að hann fari ekki út að éta fugla. Ekki af góðmennsku/góðkettsku, heldur yrði hann einfaldlega skelfingu lostinn. Hann er örugglega með minni kjark en nokkurt snjótyppi :)
Eygló, 7.3.2009 kl. 22:36
Alltaf þegar ég less bloggfærslurnar þínar Linda mín, þá get ég ekki annað hugsað sem svo að heimurinn væri mun betri, ef fleiri væru eins og þú. Viðhorf þín gagnvart sköpunarverkinu eru einstök og ég fyrir mitt leyti væri sannarlega fátækur maður, hefði ég ekki átt því láni að fagna að fá að kynnast þér.
Stefán Arngrímsson (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 11:54
Okkur í Sólheimasafni hefur tekist að snúa við náttúrulögmálunum. Hópur af gæsum safnast fyrir hjá okkur á haustin og húkir á lóðinni yfir veturinn. Flýgur svo suður á bóginn á vorin - kannski í leit að kaldara loftslagi? Þetta er stórfurðuleg hegðun.
Við gefum blessuðum fuglunum reglulega mat, og ég hef tekið eftir því að aðrar gæsir virðast ekkert sérlega búsældarlegar við hliðina á okkar fuglum. Þetta er orðið spikfeitt og ofdekrað.
Svo fáum við krummana líka, og stöku þresti. En gæsirnar eru orðnar að föstum hluta af landslagi Vogahverfisins, svo mjög að gamla fólkið sem áður kvartaði við okkur yfir að ala þessar skepnur við húsið er farið að gefa þeim líka.
Og börnin alveg elska þetta.
Er ekki annars allt gott að frétta? Langt síðan ég hef heyrt í þér.
Arngrímur (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 13:53
Halló og takk fyrir innlitið hjá mér..... Eygló, ég nenni ekki mikið að vera í argaþrasinu, er að reyna að vera jákvæð og uppbyggjandi því ég finn að það er svo miklu hollara fyrir mig....og kannski þig? Hina, alla? ???????
Annars hef ég það ágætt og brosi breitt mót hækkandi sól:)
Kveðja og knús til ykkar allra xox
Linda
Linda Samsonar Gísladóttir, 9.3.2009 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.